Þetta kemur fram í frétt á vef Samherja.

Þar segir Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna, að þessi fyrsta rafræna öryggishandbók íslenska fiskiskipaflotans sé góð fyrirmynd.

„Með því að hafa öryggishandbókina á rafrænu formi getur hver og einn skipverji haft sitt eintak í snjalltæki sínu og því hæg heimatökin að nota frítíma til að auka þekkingu sína á persónulegum öryggismálum og vinnuöryggi um borð. Slíkar bækur ættu að vera um borð í hverju fiskiskipi yfir 15 metrum og því má með sanni segja að þessi fyrsta rafræna öryggishandbók sé góð fyrirmynd fyrir íslenska skipaflotann,“ segir Hilmar.

Rafræn handbók hefur meðal annars þá kosti umfram prentaða bók að hún uppfærist stöðugt.

Jóhann G. Sævarsson, öryggisstjóri Samherja, segir að vinna við rafrænu bókina hafi staðið nokkuð lengi yfir.

„Bókin mun sannarlega senda sterk og mikilvæg skilaboð til allra og mun án efa efla enn frekar þá sterku öryggismenningu sem hefur verið að byggjast upp innan fyrirtækisins síðustu árin," segir Jóhann í frétt Samherja.