Þær undanþágur verða áfram í gildi þangað til bæði framkvæmdastjórn og ráðherraráð ESB hafa, í viðræðum við þingið, komið sér saman um endanlega útfærslu á banninu. BBC og fleiri fréttamiðlar skýra frá.
Hollendingar hafa verið iðnastir við að nýta sér undanþáguna og hafa stundað slíkar veiðar í breskri lögsögu, breskum sjómönnum til mikils ama.
Rafmagnsveiðar þessar fara þannig fram að rafbúnaði er sökkt í sjóinn, yfirleitt niður undir botn, þar sem hann sendir frá sér rafbylgjur sem lama fiska. Þeir fljóta þá upp og inn í veiðarfæri sem bíða þeirra.
Breskir sjómenn hafa gagnrýnt þessar veiðar harðlega og segja þær meðal annars hafa slæm áhrif á aðrar fisktegundir en þær, sem verið er að veiða hverju sinni.
Hollendingar standa hins vegar fast á því að þetta sé afar umhverfisvæn veiðiaðferð. Til dæmis verði meðafli minni og eldsneytisnotkun við veiðarnar sé sömuleiðis mun minni, enda veiðarfærin léttari.
„Umræðan núna snýst því miður um tilfinningar, en svona munu fiskveiðar verða stundaðar í framtíðinni,“ hefur BBC eftir Carolu Schouten , landbúnaðarráðherra Hollands.