Krabbarnir dragast að rafmagninu og nánast lamast, og þar á ofan veldur rafmagnið frumubreytingum sem geta breytt lífsháttum þeirra.

Breska dagblaðið The Guardian greinir frá skoskum rannsóknum sem leiða þetta í ljós. Vísindamenn við rannsóknarstofnun í bænum St. Abbs fylgdust með áhrifum neðansjávarkapla á um 60 töskukrabba og komust að því að krabbarnir urðu eins og dáleiddir, hættu að hreyfa sig.

„Það er ekki vandamál út af fyrir sig en ef þeir hreyfa sig ekkert þá halda þeir hvorki í fæðuleit né makaleit,“ hefur The Guardian eftir Alastair Lyndon hjá Heriot-Watt háskólanum.

Þetta gæti orðið til þess að karlkyns töskukrabbar fari ekki af stað í hefðbundna göngu norður eftir austurströnd Skotlands, en þar skiptir hann miklu máli fyrir sjómenn og byggðarlögin.

Frumubreytingar hafa einnig þau áhrif að krabbarnir verða viðkvæmari fyrir sýkingum.