Stormur HF í eigu Storm Seafood kom til Reykjavíkur á mánudag eftir viðamiklar breytingar í Gdansk í Póllandi. Þar var sett met í lengingu íslensks skips.

Skipið var smíðað á Nýfundnalandi 2005 og var 25 metrar á lengd og 9,20 á breidd. Smíðin var fjármögnuð af Landsbankanum og í hruninu komst það í eigu þrotabús bankans. Þá hafði verð lokið við um 80% af smíði skipsins. Það hafði verið til sölu í mörg ár þegar Stormur Seafood keypti það loks árið 2015. Í Póllandi var það lengt um 23 metra og breikkað talsvert.

Skipið er fyrsta rafknúna fiskiskip landsins og með hliðarbrunn þar sem línan verður dregin. Lestarrýmið er mjög stórt miðað við skip af þessari stærð. Hægt er að koma fyrir í lestinni 456 kerum með samtals um 140 tonn af ferskum fisk og um 400 tonn af frystri afurð. Lestin er því litlu minni en í nýjum togurum HB Granda.

Steindór Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Storms Seafood og aðaleigandi, segir að fyrirtækið muni á endanum ekki  gera skipið út. Ákveðið hafi verið að selja það og fyrirtækið Storm Seafood einnig.