Ræktað skelfiskskjöt var í gærkvöldi í boði í fyrsta sinn utan Asíu hjá Íslenska sjávarklasanum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sjávarklasanum undir yfirskriftinni Íslendingar taka fagnandi á móti matvælatengdri nýsköpun frá Suður-Kóreu í Sjávarklasanum.
Í tilkynningu segir að ORF Líftækni og suður-kóreska nýsköpunarfyrirtækið Cellmeat hafi boðið upp á ræktað skelfiskskjöt í Sjávarklasanum í fyrsta skipti utan Asíu.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141167.width-500.jpg)
„Cellmeat hefur unnið að þróun ræktaðs skelfiskskjöts síðan árið 2019 og hefur fyrirtækið skapað sér sérstöðu á heimsvísu með þróun og framleiðslu á nokkrum tegundum sjávarafurða. Byggt á þeim árangri, hefur Cellmeat nú hafið þróun á vistkjötsframleiðslu með MESOkine vörulínu sérhæfðra próteina frá ORF Líftækni sem er sérstaklega þróuð fyrir framleiðslu á slíku vistkjöti,“ segir í tilkynningunni.
Íslendingar framarlega í matvælatengdri nýsköpun
Þá segir að Íslendingar séu að skapa sér sess meðal þeirra þjóða sem taki einna mest fagnandi á móti matvælatengdri nýsköpun. „Í febrúar í fyrra var fyrsta vistkjötsmökkun Evrópu haldin í húsakynnum ORF Líftækni, í samstarfi við ástralska fyrirtækið VOW, og Íslendingar eru nú þeir fyrstu, utan S-Kóreu og Singapore, til þess að bragða á ræktuðu skelfiskskjöti frá Cellmeat.“
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Björn Skúlason, eiginmaður forseta Íslands, voru meðal þeirra sem brögðuðu á hinum nýstárlegu matvælum sem voru framreidd af kokkinum Jinyoung Park frá Suður-Kóreu.
Framleiðendur vistkjöts þurfi að stórauka framleiðslugetu
„Þróun á vistkjöti er mikilvæg til þess að uppfylla vaxandi þörf mannkyns á gæðapróteinum, til viðbótar við hinar hefðbundnu framleiðsluaðferðir. Til að vistkjöt nái samkeppnishæfni og mæti eftirspurn á markaði, þurfa framleiðendur vistkjöts að stórauka framleiðslugetu og lækka framleiðslukostnað,“ segir áfram í tilkynningunni. Ákveðin sérhæfð prótein, svokallaðir vaxtarþættir, séu lykilþáttur í framleiðsluferlinu.
„Um árabil hefur ORF Líftækni þróað skilvirka leið á framleiðslu vaxtarþátta dýra með erfðatækni í byggi. Síðustu ár, hefur fyrirtækið unnið ötullega að þróun MESOkine vörulínunnar fyrir vistkjötsmarkað samhliða því að auka framleiðslugetu sína til að mæta vaxandi eftirspurn.“
Forstjóri ORF stolt af stöðu Íslands
Haft er eftir Berglindi Rán Ólafsdóttur, forstýru ORF Líftækni, að hún sé stolt af því hversu framarlega Ísland hafi stillt sér upp þegar komi að því að kynna matvæli framtíðar með að bjóða upp á slíka smökkunarupplifun
„Vaxtarþættir ORF Líftækni gera vistkjötsframleiðendum eins og Cellmeat ekki aðeins kleift að rækta vistkjöt heldur einnig að skala upp ræktunina til að mæta framtíðareftirspurn. Það er mikilvæg forsenda þess að geta minnkað umhverfisspor matvælaframleiðslu,” segir Berglind.
Vilja stærra samstarfsnet á Íslandi
Þá er í tilkynningunni haft eftir Giljun Park, forstjóra og stofnanda CellMEAT, að það sé sönn ánægja að kynna matvörur okkar á Íslandi í gegnum samstarf við ORF Líftækni.
„Til að baráttan gegn loftslagsvánni geti gengið vel þá þurfa margar lausnir að koma til. Til að vistkjöt geti orðið hluti af lausninni þá er ekki nóg að það sé gott á bragðið, heldur þarf framleiðsla þess sannanlega að vera umhverfisvæn og hagkvæm,“ segir Park sem kveður áherslur og árangur Íslands í loftslagsmálum til mikillar fyrirmyndar. Það sama gildi um árangur í uppbyggingu græns orkukerfis.
„Samstarf Cellmeat og ORF Líftækni hefur reynst bæði ánægjulegt og árangursríkt. Vegna þess hve vel áherslur okkar ríma við áherslur Íslands, þá vonumst við til þess að stækka samstarfsnet okkar hér á landi,“ segir Park.
Um CellMEAT
„Cellmeat, suður-kóreskt sprotafyrirtæki stofnað árið 2019, sérhæfir sig í framleiðslu á frumuræktuðum sjávarafurðum.
Cellmeat fékk nýlega NET (New Excellent Technology) vottun í Suður-Kóreu, sem gerir fyrirtækið að því fyrsta sem hlýtur slíka viðurkenningu á sviði frumuræktaðra matvæla. Cellmeat hefur byggt verksmiðju með 200 tonna framleiðslugetu á ári. Fyrirtækið bíður nú eftir samþykki frá kóresku matvæla- og lyfjaeftirlitinu, á sama tíma og það undirbýr samþykki í öðrum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum.
Cellmeat er í samstarfi við stór matvælafyrirtæki og er tilbúið í fjöldaframleiðslu og sölu á fyrstu vörulínunni, sem samanstendur meðal annars af kavíar, rækjum, fiskikökum.“
Um ORF Líftækni
„ORF Líftækni er brautryðjandi í þróun og framleiðslu á hágæða vaxtarþáttum með erfðatækni í byggplöntum og framleiðir meðal annars virku efnin í Bioeffect snyrtivörunum. Byggkerfi ORF Líftækni hentar vistkjötsframleiðslu einnig einstaklega vel og því var vörulínan MESOkine þróuð sérstaklega fyrir þann markað. Framleiðslugeta ORF á MESOkine verður aukin á næstu misserum og árum í takt við þróun vistkjötsmarkaðar.“