Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi ganga vel og eru nokkrir bátar komnir með yfir 100 tonna afla, að því er fram kemur á vefnum www.bb.is .

Halldór Sigurðsson ÍS á Ísafirði er aflahæstur þeirra báta sem hafa verið við rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi eftir að veiðarnar voru leyfðar aftur í október. Er báturinn kominn með 115,9 tonn af rækju það sem af er. Byr ÍS á Ísafirði er annar aflahæstur, kominn með 109,5 tonn, en báðir þessir bátar landa í Súðavík. Aldan ÍS á Ísafirði er komin með 104,8 tonn. Báturinn er búinn með sinn kvóta en skipti í síðustu viku á rækju- og steinbítskvóta við Fiskistofu.

Valur ÍS í Súðavík er kominn með 98,8 tonn og Gunnvör ÍS á Ísafirði með 91,8 tonn en báðir þessir bátar landa í Súðavík. Þá er Markús ÍS á Flateyri kominn með 53,4 tonn og Sæbjörn ÍS í Bolungarvík er með 26,5 tonn það sem af er, segir ennfremur á www.bb.is .