Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi eru hafnar. Halldór Sigurðsson ÍS fór í sinn fyrsta róður á mánudaginn en áður hafði hann farið tvær rannsóknaferðir, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar frá í haust verður heimilt að veiða 484 tonn af rækju í Djúpinu á vertíðinni.
„Ástandið á rækjunni er gott að mínum dómi. Mér fannst vera töluvert mikið af rækju í inndjúpinu. Veiðarnar byrja seint en okkur hlakkar til að taka eina snarpa vertíð þótt kvótinn sé ekki mikill,“ sagði Örn Torfason, skipstjóri á Halldóri Sigurðssyni ÍS, í samtali við Fiskifréttir.
Aflinn hjá Halldóri Sigurðssyni ÍS var 1,3 tonn á mánudaginn og á þriðjudaginn fengu þeir 6,5 tonn.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.