Fallandi rækjuverð í Evrópu hefur leitt til þess að áhafnir um 70 hollenskra rækjubáta sem stunda veiðar í Norðursjó fóru í verkfall í gær. Með því að binda báta sína við bryggju vonast sjómennirnir til þess að skortur verði á rækju og það leiði til þess að verð hækki.

Óánægja rækjusjómannanna hefur grafið um sig í þó nokkurn tíma. Meðalverð á rækju hefur lækkað úr 1,6 evrum á kíló í 1,3 evrur (úr 264 í 215 ISK). Það er samdóma álit hagfræðinga og sjómanna að meðalverðið þurfi að vera á bilinu 3,50-3,75 evrur (578-619 ISK) til þess að endar nái saman í útgerðinni. Litlar líkur eru taldar á því að svo verði í nánustu framtíð. Hollenska samkeppniseftirlitið hefur nýlega lagt bann við því að reynt verði að setja fast lágmarksverð á rækjuna.

Lækkandi verð á rækju er ekki bundið við Evrópulönd. Í ríkjum Bandaríkjanna sem liggja að Mexíkóflóa er rækjuverð nú í sögulegu lágmarki og hefur það leitt til verkfalla og mótmæla.

Sjávarútvegsvefurinn FishUpdate.com skýrir frá þessu.