Nýlega var birt samantekt yfir 10 vinsælustu sjávarafurðir í Bandaríkjunum á árinu 2015. Rækjur tróna þar á toppnum en hver Bandaríkjamaður borðar um 1,8 kíló af rækjum á ári að meðaltali. Hér er einkum um heitsjávarrækju að ræða.

Í öðru sæti er lax en Kaninn borðar 1,3 kíló af honum á mann. Næst á eftir kemur túnfiskur með tæpt kíló á mann. Eldisfiskurinn tilapia er í fjórða sæti með 600 grömm á mann, alaskaufsi með 430 grömm og pangasius 330 grömm.

Þorskur er í sjöunda sæti með 270 grömm á mann en ekki fylgir sögunni hvernig sú neysla skiptist á milli atlantshafsþorsks og kyrrahafsþorsks. Þar á eftir kemur krabbi með 250 grömm á mann, fengrani (catfish) 230 grömm á mann og skelfiskur rekur lestina á topp tíu með 150 grömm á mann árið 2015.

Bandaríkjamenn borðuðu meira af  laxi en minna af túnfiski árið 2015 en árið á undan. Aðrar tegundir sem eru í sókna eru pangasius og krabbar. Bandaríkjamenn borðuðu hins vegar minna af þorski og ufsa í fyrra en árið á undan.