Megnið af rækjuaflanum úr Ísafjarðardjúpi er ekið til Hólmavíkur til vinnslu hjá rækjuvinnslu Hólmadrangs ehf. Einungis einn af fimm bátum sem hafa leyfi til rækjuveiða í Djúpinu landar á Ísafirði. Hinir landa allir í Súðavík. Þetta kemur fram á vefnum bb.is.

„Ég bauð verð sem ég taldi, miðað við heilbrigða skynsemi, að hentaði verksmiðjunni varðandi kostnað og annað, en annar aðili bauð hærra verð og óraunhæft verð að okkar mati. Ég varð að bíta í það súra epli að ég hef ekki efni á að tapa peningum og því fóru þessi viðskipti annað,“ segir Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður rækjuverksmiðjunnar Kampa ehf., á Ísafirði í samtali við við bb.is.

„Ég benti þó þessum mönnum á að við ætluðum að reyna komast upp í þessa tölu sem þarna var nefnd ef okkur tækist að auka nýtingu á rækjunni,“ segir hann. „Við fáum 40% nýtingu á rækju sem bátar eins og Gunnbjörn, Ísborg, Hera og Valbjörn hafa veitt fyrir norðan land. En þegar við fengum fyrst að prófa nokkur tonn sem veidd voru í Djúpinu um daginn fengum við aðeins 30% nýtingu. Við erum þó að vinna að leiðum til að auka nýtinguna og þegar það tekst get ég boðið þeim sem veiða rækjuna hærra verð, en þeir gátu ekki beðið og tóku því verði sem bauðst núna.”