Grænlenska landsstjórnin hefur ákveðið að minnka rækjukvótann við Vestur-Grænland úr 85.000 tonnum á nýliðnu ári í 73.000 tonn á því nýbyrjaða eða um 14% milli ára. Innifalinn er 2.000 rækjutonna kvóti sem ESB hefur við Grænland og 1.939 tonna kvóti sem ráðstafað er til Kanada.
Tekið er fram á vef grænlensku landsstjórnarinnar að kvótinn sé minnkaður með hliðsjón af vísindaráðgjöf og með tilliti til þess að kvótinn samræmist MSC-vottuninni sem rækjuveiðarnar hafi öðlast. Kvótinn skiptist þannig að 57% koma í hlut úthafsveiðiflotans og 43% til strandveiðiflotans.
Þá hefur verið ákveðið að rækjukvótinn við Austur-Grænland verði 6.100 tonn, þar af er 600 tonnum úthlutað til grænlenskra útgerða en 5.500 tonn renna til ESB í samræmi við gildandi fiskveiðisamning.
Því má bæta við að rækjuveiðarnar við Vestur-Grænland hafa snarminnkað á síðustu árum. Árið 2007 nam aflinn 134.000 tonnum og árið 2012 var hann enn yfir 100.000 tonn en síðan hefur hallað hressilega undan fæti.