Rækjukvótinn í Ísafjarðardjúpi hefur verið aukinn um 200 tonn, samkvæmt ákvörðun atvinnuvegaráðuneytisins að tillögu Hafrannsóknastofnunar. Í haust var kvótinn ákveðinn 300 tonn en hann fer nú í 500 tonn.
Kvótinn í haust var gefinn út eftir könnun á heimabáti í lok október. Miðaðist hann við að eingöngu yrði veitt í útdjúpinu. Síðan þá hafa farið fram nokkrar rannsóknir í Djúpinu að ósk heimamanna sem ekki leiddu til breytinga á kvóta. Ákveðið var að kanna útdjúpið í byrjun síðustu viku og tóku tveir heimabátar þátt, Aldan ÍS og Gunnvör ÍS. Niðurstöður úr þeirri könnun leiddu til þess að kvótinn var aukinn, að því er Ingibjörg G. Jónsdóttir, rækjusérfræðingur Hafrannsóknastofnunar, sagði í samtali við Fiskifréttir. Sem fyrr er eingöngu heimilt að veiða rækjuna í útdjúpinu