Rækjukvóta í grænlenskri lögsögu fyrir árið 2014 hefur verið úthlutað. Við Vestur-Grænland nema aflaheimildirnar 85.000 tonnum, þar af fær Evrópusambandið 3.400 tonn og Kanada 2.193 tonn.
Kvóta grænlenskra skipa við Vestur-Grænland, tæpum 80 þús. tonnum, er skipt þannig að strandveiðiflotinn fær 43% og úthafsflotinn 57%. Rúmlega 20 minni rækjuskip stunda veiðarnar og sjö stórir togarar.
Rækjukvótinn við Vestur-Grænland er heldur minni í ár en undanfarin ár. Þannig var hann 105.000 tonn árið 2012 og 90.000 tonn árið 2013.
Við Austur-Grænland er rækjukvótinn 8.300 tonn og kemur bróðurparturinn í hlut ESB eða 7.500 tonn en grænlenski úthafsflotinn fær afganginn.
Kvótinn við Vestur-Grænland er nokkurn veginn í takt við veiðiráðgjöf. Hins vegar lögðu vísindamenn til að rækjukvótinn við Austur-Grænland yrði færður niður í 2.000 tonn vegna slæmrar stöðu stofnsins þar, en mörg undanfarin ár hefur veiðiráðgjöfin verið 12.400 tonn. Grænlensk stjórnvöld treystu sér ekki til að minnka kvótann svo mikið í einu stökki heldur var ákveðið að gera það í áföngum á nokkrum árum.