„Við erum komin með alveg glænýja vörulínu sem fyrirtækið er að leggja mesta áherslu á núna.Þetta er allt saman framleitt í hátæknivinnslunni okkar á Fáskrúðsfirði,“ segir Hörður Kristinsson, rekstrarstjóri Responsible Foods.
„Þetta eru fimm nýjar vörur sem við erum að koma með á markað, alveg einstakt nasl sem hvergi hefur sést í heiminum áður,“ segir Hörður sem kveður þetta byggjast á þeirri sérstöku þurrkunartækni sem Responsible Foods hafi einkaleyfi fyrir á Íslandi.
Framleitt er úr ýsu og laxi undir vörumerkinu Næra. „Ég held að hér á Íslandi sé enginn að framleiða þurrkað nasl úr laxi, af einhverjum kala að minnsta kosti,“ segir Hörður. „Við erum að framleiða bita, stökka og mjög bragðgóða með mismunandi bragðtegundum. Þetta eru próteinríkir og Omega 3 ríkir bitar og áherslan er sett fyrst og fremst á Bandaríkjamarkað.“
Sló gersamlega í gegn á Fancy Food
Einnig framleiðir Responsible Foods nasl úr ýsu. „Við blöndum saman ýsu og heitum osti og smjöri í stökka litla bita,“ lýsir Hörður sem kveður fulltrúa Responsible Foods hafa kynnt þessa nýju vörulínu á einni stærstu gourmet matvælasýningu í Bandaríkjunum, Fancy Food Show í Las Vegas, í janúar.

„Þar vorum við með bás að kynna þessar vörur fyrir bandarískum smásöluaðilum, neytendum og dreifingaraðilum. Fiskinaslið gjörsamlega sló í gegn. Fólk þar hefur kannski heyrt um harðfisk en ameríski neytandinn kærir sig ekki um hann því hann er alltof bragðsterkur og þeim finnst hann illa lyktandi,“ segir Hörður. Bitarnir frá Responsible Foods séu hins vegar lausir við hina sterku fiskilykt og fiskibragð. Það eigi sérstaklega við um laxinn.
„Laxinn er með mjög milt bragð og það er engin þránun því við erum að þurrka þetta á leifturhraða, á um það bil þrjátíu mínútum við lágan hita. Þá náðum við að varðveita þetta ferska laxabragð án þess að fá þránun eða fiskilykt,“ segirHörður. Tæknin sem beitt er felst í geislaþurrkun undir lofttæmi.
Yrði mikill áfangi
„Við erum bæði að nota þetta fyrir fiskinn á Fáskrúðsfirði og erum líka að framleiða vörur úti á Granda sem eru unnar úr íslenskum osti og skyri. Skyr er mjög vinsælt í Bandaríkjunum og það er mikill áhugi á því,“ segir Hörður. Þeim hafi verið veitt mikil athygli í Las Vegas.
„Á þessari sýningu fengum við áhuga frá mjög stórum og flottum matvælakeðjum. Við erum til dæmis í viðræðum núna við Whole Foods sem er Mekka hollra vara í Bandaríkjunum. Þeir hafa mikinn áhuga á fiskinaslinu og það yrði mjög mikill áfangi að sjá íslenskt fiskinasl komast þangað inn. En það er allt á byrjunarstigi hjá okkur,“ undirstrikar Hörður.

Áðurgreinda tækni segir Hörður einstaka í heiminum og vera algjöra byltingu er komi að þurrkun á fiski. „Við erum enn lítil og erum með einn þurrkara en það góða við þessa tækni er að það er hægt að skala hana upp nánast í hvaða stærð sem er þannig að við getum brugðist við eftirspurn frá markaðnum. Og vísbendingarnar þaðan eru mjög jákvæðar,“ segir Hörður. Svokallaður fishjerky markaður sé mjög vaxandi í Bandaríkjunum.
Eiginlega ofurnasl
„Próteinríkar vörur vaxa mjög hratt, sérstaklega þær sem eru með fá innihaldsefni. Það sem gerir okkur sérstök miðað við aðrar jerkyvörur er að við erum með miklu minna salt og ekki með allt fullt af sykri. Við erum með mjög lítið af kolvetnum, hátt próteinsmagn, lágt saltmagn og gríðarlega hátt magn af Omgea 3 fitusýrum. Þetta er eiginlega ofurnasl,“ segir Hörður.
Vegna áforma um vaxandi umsvif segir Hörður Responsible Foods þurfa að stækka.
„Við þurfum að bæta í þannig að við erum í öðrum fjármögnunarfasa í fyrirtækinu og erum að fara að hefja viðræður við áhugasama fjárfesta sem hafa áhuga á að koma inn í félagið til að byggja þetta upp,“ segir Hörður. Og markaðstarfið heldur áfram.
„Við erum að fara að sýna þessar vörur á SENA sjávarútvegssýningunni í Boston í mars. Við verðum með öðrum íslenskum fyrirtækjum á Íslandsbásnum sem Íslandsstofa sér um. Við ætlum eingöngu að sýna fiskinaslið og verðum með bás algjörlega undir það,“ segir Hörður Kristinsson.