Um miðjan október var gert fjölþjóðlegt samkomulag um ráðgjöf um heildarveiði kolmunna og norsk-íslenskrar síldar á næsta ári. Er þar rætt um 1.447.054 tonn í kolmunna og 401.794 tonn í síldinni. Nokkrum dögum síðar náðist einnig samkomulag um heildarráðgjöf um veiðar á makríl upp á 576.958 tonn.
Eftir stendur að skipta þessari ráðlögðu heildarveiði milli þjóðanna sem eiga aðild að samkomulagi. Auk Íslands eru það Noregur, Rússland, Færeyjar, Stóra-Bretland. Evrópusambandið og Grænland.
Funda um skiptingu
Að því er kemur fram í svari frá matvælaráðuneytinu til Fiskifrétta samþykktu strandríkin í kolmunna og norsk-íslenskri síld á fundum sínum að byggja aflamark á ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).
„Stefnt er að samningafundum um skiptingu kolmunna og NÍ-síldar í upphafi árs 2025 en nákvæm dagsetning liggur ekki fyrir. Ákveðið hefur verið að funda um skiptingu makríls 16. og 17. desember í London,“ segir matvælaráðuneytið.
Minni síldarkvóti
Þá kemur fram í svari matvælaráðuneytisins að Ísland hafi á undanförnum árum sett sér einhliða aflamark í þessum tegundum líkt og aðrar þjóðir. Í makríl sé það upp á 16,5 prósent af ráðlögðum heildarafla, í kolmunna upp á 21,10 prósent og í síld upp á 18 prósent.
„Á síðasta ári, í ljósi slæmrar stöðu síldarstofnsins var aflamark síldar miðað við 15,6 prósent í stað 18 prósent. Noregur og Færeyjar lækkuðu sitt einhliða aflamark samsvarandi,“ segir í svari matvælaráðuneytisins.