Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið telur að ráðherra geti ekki haft afskipti af sölu Stálskipa á aflaheimildum frá Hafnarfirði eins og bæjaryfirvöld þar óskuðu eftir. Stálskip hafi hins vegar virt að vettugi lagalega skyldu til að tilkynna um söluna.

Forsaga málsins er sú að í lok janúar seldu Stálskip skipið Þór og allan kvóta fyrirtækisins. Hann nemur um helmingi allra aflahlutdeilda útgerða í Hafnarfirði. Hafnarfjörður taldi sig eiga forkaupsrétt að skipinu og aflaheimildunum en bænum hafi ekki verið tilkynnt skriflega um söluna. Vegna þess að það var ekki gert, hafi sveitarfélagið ekki getað tekið afstöðu til þess hvort það ætti að nýta forkaupsrétt sinn - kaupa skipið og/eða aflaheimildirnar.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að tvö skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að ráðuneytið geti blandað sér í málið. Annars vegar að verið væri að selja meira en fimmtung aflaheimilda úr bæjarfélaginu og hins vegar að salan hefði veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- eða byggðalegu tilliti. Um seinna atriðið var deilt. Hafnarfjarðarbær sagði að áhrifin væru mikil og neikvæð. En Byggðastofnun sagði í áliti sínu að ráðstöfun aflaheimildanna hefði ekki veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- eða byggðalegu tilliti fyrir Hafnarfjörð. Því taldi ráðuneytið að ráðherra gæti ekki beitt sér í málinu.

Sjá nánar á vef RÚV