„Að mati starfshópsins eru framkomnar tillögur og þær úrbætur sem þeim er ætlað að hafa til þess fallnar að hafa áhrif á árangur við veiðarnar,“ segir í tilkynningu á vef matvælaráðuneytins þar sem fjallað er um nýja skýrslu starfshóps um hvalveiðar.

„Starfshópurinn telur ekki unnt að útiloka miðað við lýsingar á þeim ólíku aðferðum sem lagt hefur verið mat á að veiðar með breyttum aðferðum séu betur til þess fallnar en eldri aðferðir að fækka frávikum sé litið til mögulegra samlegðaráhrifa þeirra,“ segir einnig um niðurstöður starfshópsins.

Ráðuneytið segist nú skoða skýrsluna svo undirbyggja megi næstu skref. Eins og kunnugt er ákvað Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í júní að banna hvalveiðar út ágúst á þeim grundvelli að veiðarnar eins og þær hefðu verið stundaðar brytu í bága við dýraverndarlög.

„Hér eftir sem hingað til verða allar ráðstafanir byggðar á gildandi lögum, faglegum sjónarmiðum og í samræmi við vandaða stjórnsýslu,“ segir áfram á vef ráðuneytisins.

Umræddur starfshópur var skipaður af Svandísi í júní.