Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur metið ástand spærlingsstofnsins í NA-Atlantshafi og leggur til að engar veiðar verði leyfðar á fyrri helmingi næsta árs. Veiðiráðgjöf fyrir síðari hluta ársins verður birt í júní 2012.

Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að nýliðun í stofninn var mjög léleg bæði í fyrra og á þessu ári. Á yfirstandandi ári ráðlagði ICES einnig veiðibann á fyrri helmingi ársins en nú á síðari helmingnum er kvótinn 6.000 tonn.

Sú var tíðin að mikið var veitt af spærling í Norðursjó og komst aflinn í tæplega 900 þús. tonn árið 1974. Á síðari árum hefur mjög dregið úr aflanum og var hann 55.000 tonn  árið 2010.

Spærlingur var veiddur í tölkuverðum mæli úti af suðurströnd Íslands á áratugnum milli 1970 og 1980 og fór hann í bræðslu. Mestur varð ársaflinn 35 þús. tonn árið 1978. Mikill meðafli fylgdi veiðunum og voru þær að lokum stöðvaðar. Spærlingur þykir mikilvæg fæða þorsks og ufsa og eru beinar veiðar á honum því bannaðar við Ísland.