Árlegt herrakvöld Kótelettufélags togarajaxla var haldið fyrir skömmu, en um 150 eldhressir herramenn sóttu samkvæmið á tuttugustu hæðinni í Turninum Kópavogi, að því er fram kemur á vefnum sksiglo.is.
Kótelettufélag togarajaxla er „dótturfélag“ Hafliðafélagsins SI-2, sem er félag fyrrum sjómanna á síðutogaranum Hafliða frá Siglufirði. Brottfluttir Siglfirðingar, Hafliðamenn og fleiri góðir gestir sóttu samkomuna, þeirra á meðal Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
„Þetta var alveg frábær skemmtun og runnu lúbarðar, ófituskornarnar, eðalkótelettur vel niður með smjöri, steiktum lauk í mikilli fitu, Ora baunum, rabbarbarasultu og Ora rauðkáli. Allar þessar kótelettur voru steiktar með OXAN raspi,“ segir Birgir Ingimarsson, einn Hafliðamanna.
Á vefnum sksiglo.is eru fleiri myndir frá herrakvöldi Kótelettufélagsins. Þegar flestar myndirnar voru teknar voru menn að slátra eftirréttinum sem var ,,nýuppteknir“ Cokteilávextir úr dós frá Libby´s ásamt rjómaís og þeyttum rjóma. Alveg eins og í gamla daga.