Sjávarútvegsráðherra hefur endurskoðað ákvörðun sína um að fresta upphafi grásleppuveiða til 1. apríl. Nú hefur hann ákveðið að veiðar megi hefjast 26. mars. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Upphaflega var gefin út reglugerð að veiðarnar mættu hefjast 20. mars. Síðan ákvað  ráðherrann að fresta því til 1. apríl að ráði Hafrannsóknastofnunar og var gefin sú skýring að þorskur sem meðafli við grásleppuveiðar væri mestur í upphafi vertíðar.

Landssamband smábátaeigenda mótmælti þessari frestun hástöfum og sagði hana valda grásleppukörlum miklum fjárhagslegum skaða enda hefði ákvörðunin verið tilkynnt alltof seint eða aðeins fimm dögum fyrir útgefinn tíma. Nú hefur ráðherrann sem sagt farið bil beggja og ákveðið 26. mars sem byrjunardag veiðanna.