Hafrannsóknastofnun kynnti í morgun veiðiráðgjöf sína um aflamark loðnu fyrir komandi vertíð.
Væntingar um góðan upphafskvóta í loðnu rættust en Hafrannsóknastofnun leggur til, í samræmi við aflareglu strandríkja, að afli fiskveiðiárið 2021/2022 verði 904.000 tonn. Ráðgjöfin verður endurmetin í kjölfar mælinga á stærð veiðistofnsins í byrjun árs 2022.
Samkvæmt mælingu Hafrannsóknastofnunar í haust er hrygningarstofn loðnu metinn rúmlega 1,8 milljón tonn. Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150.000 tonnum. Vísitala ókynþroska loðnu (eins og tveggja ára loðnu) er sú þriðja hæsta frá upphafi mælinga.
Hér er um að ræða haustráðgjöf sem er endurmetin ráðgjöf fyrir núverandi fiskveiðiár og kemur í stað hámarks upphafsráðgjafar sem var 400.000 tonn og byggði á bergmálsmælingu ókynþroska loðnu (1 og 2 ára) haustið 2020.
Samtals veiddust 128.600 tonn af loðnu á fiskveiðiárinu 2020/2021, sem er með minnsta móti frá því loðnuveiðar hófust ef undan eru skilin ár án veiði. Sumar‐ og haustveiði 2020 var engin. Vetrarveiðin 2021 fór fram í janúar‐ mars á íslenska landgrunninu. Meirihluti aflans var veiddur í nót.
Til viðbótar þessu kom fram í máli sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar að væntingar um loðnuveiði 2022/2023 eru einnig góðar, og vonir um að loðnustofninn hafi verulega rétt úr hryggnum. Stór loðnuganga inn í íslenska lögsögu séu ekki einungis góðar fréttir þegar kemur að veiðiskap heldur einnig fyrir afkomu annarra nytjastofna.