Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, hefur sent frá sér leiðréttingu á fyrri ráðgjöf um veiðar á norsk-íslenskri síld bæði árin 2017 og 2018. Þessa leiðréttingu má rekja til villu sem uppgötvaðist nýlega í úrvinnslu á bergmálsgögnum úr leiðöngrum á hrygningartíma við Noreg.
Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknastofnun.
Afleiðingin er meðal annars sú að ráðlagður heildarafli 2018 samkvæmt aflareglu verður 384.197 tonn, eða 30% lægri en áður kynnt ráðgjöf frá því í september.
Afli íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árið 2016 var 50.186 tonn og var allur veiddur í flotvörpu. Tæp 99% aflans fékkst innan íslenskrar lögsögu, um 1% í færeyskri lögsögu og minna en 0.5% á alþjóðahafsvæði. Beinar veiðar á síldinni hófust í ágúst og stóðu yfir fram í desember. Mest veiddist í september (35%) og í október (40%). Heildarafli allra þjóða úr stofninum árið 2016 var 383.174 tonn.