Þrátt fyrir refsiaðgerðir gegn Rússlandi hafa norskir og rússneskir hafrannsóknamenn haldið áfram samstarfi um rannsóknir í Barentshafi. Að þessu sinni þó án aðkomu Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem lýsti því yfir 30. mars síðastliðinn að öllu vísindasamstarfi við Rússa verði hætt um óákveðinn tíma.

„Við þurfum að vinna aðeins öðruvísi en venjulega,“ hefur norska Fiskeribladet eftir Geir Huse, rannsóknastjóra norsku Hafrannsóknastofnunarinnar (Havforskningsinstituttet). „En við höfum komist að samkomulagi við Rússana um ferlið og formið á ráðgjöfinni og notum að stórum hluta líkanið frá ICES.“

Huse segir að fjarvera ICES ætti ekki að bitna neitt á gæðum ráðgjafarinnar, úr því aðferðafræðin er sú sama.

Rússar landa

Rússneskir togarar hafa einnig haldið áfram að landa í Noregi. Fiskeribladet greinir frá því að það sem af er þessu ári hafi Rússar landað ríflega 90.000 tonnum af fiski og verðmætið er metið á 1,5 milljarð norskra króna, eða um 21 milljarð íslenskra. Magnið er heldur minna en á síðasta ári, en verðmætið meira vegna þess hve verð hefur verið hagstætt.

Þetta hefur verið töluvert gagnrýnt í Noregi. Fiskeribladet bendir á að frá árinu 2014 hefur Rússland bannað allan innflutning fisks frá Noregi.

„Það er kominn tími til að Noregur svari í sömu mynt,“ segir í leiðara blaðsins. „Engum er greiði gerður með því að Noregur verði áfram efnhagsleg fríhöfn fyrir Rússa.“

Refsiaðgerðir Evrópusambandsins, sem Norðmenn fylgja, ná þó ekki til annarra sjávarafurða en kavíars, rækju, krabba og sambærilegra afurða. Engar hömlur hafa verið lagðar á innflutning á til dæmis þorski og ufsa frá Rússlandi.

Bretar tolla

Bretar hafa einnig haldið áfram að flytja inn fisk frá Rússlandi í verulegu magni, en bresk stjórnvöld hafa ákveðið að leggja 35% toll á þann innflutning. Ákvörðun um það var tekin í mars, en kom ekki til framkvæmda fyrr en eftir miðjan júlí.

Bretum er mörgum hverjum um og ó, enda hefur fiskverð verið í hæstu hæðum eins og hrávörur almennt. Tollurinn á Rússafiskinn hækkar verðið enn meir, og bitnar ekki síst á neytendum sem eru farnir að hugsa sig tvisvar um áður en þeir fjárfesta í fiski og frönskum, vinsælasta skyndibita Breta.