Árið 1962 skrifaði náttúrufræðingurinn Ingimar Óskarsson eftirfarandi um einkennilegan snigil sem fundist hafði við austurströnd Íslands: „Ný tegund. Lambabót[sic] í Stöðvarfirði A. Bæði lifandi og dauð eintök tekin í flæðarmáli. Ekki kunn frá öðrum stöðum, hvorki hér við land né annars staðar."
Frá þessu segir á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. Þar segir að þessari nýju tegund var gefið nafnið Stöðvarkóngur (lat. Buccinum angulare), og var hún skilgreind frá nánum Beitukóngum (lat. Buccinum undatum) út frá einstöku lagi kuðungsins. Rúmum 60 árum síðar er staða þessarar tegundar enn óljós - er þetta mögulega bara afmyndun á kuðungi einstakra Beitukónga, eða hefur sérstakur aðskilnaður í svipgerð átt sér stað við Austurland sem myndað hefur tvær aðskildar greinar á þróunartré Kóngaættar (lat. Buccinoidea)?

Í fyrsta sinn hefur nú tekist að raðgreina stuttan bút af erfðaefni úr hvatbera Stöðvarkóngs, og hann borinn saman við erfðaefni úr Beitukóngi. Niðurstaða þessara samanburðar verður kynnt á málstofu hjá Hafrannsóknastofnun næstkomandi mánudag. Þar flytur Áki Jarl Lárusson stofnerfðafræðingur erindið: Stöðvakóngur (Buccinum superangulare) – ráðgátan leyst með erfðafræði? Málstofan er öllum opin. Hér er tengill á fjarfund frá málstofunni.