Hnúfubakur hefur tekið við af hrefnu sem ráðandi hvalategund á landgrunni Íslands. Langreyðarstofninn hefur stækkað mikið hér við land og er líklega á góðri leið með að ná þeirri stærð sem hann var í fyrir tíma hvalveiða.

Umtalsverðar breytingar hafa orðið á útbreiðslu og fjölda skíðishvala við Ísland undanfarna þrjá áratugi. Rekja má þessar breytingar til hlýnunar sjávar og framboðs á fæðu. Þetta kom fram hjá Gísla Víkingssyni, sérfræðingi á Hafrannsóknastofnun, í viðtali við Fiskifréttir.

Gísli sagði að hnúfubakur hefði algerlega tekið við af hrefnunni sem ráðandi hvalategund á landgrunninu. Hrefnan er minni tegund en hnúfubakurinn og notast Gísli við lífmassa dýranna í þessum samanburði en ekki fjölda þeirra. Í upphafi talningartímabilsins árið 1987 var lífmassi hrefnu um 125 þúsund tonn og lífmassi hnúfubaks um 64 þúsund tonn, samanlagt um 189  þúsund tonn. Árið 2007 var lífmassi hrefnu hins vegar um 100 þúsund tonn en hnúfubaks um 448 þúsund tonn, samanlagt um 548 þúsund tonn.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.