Líkan af síðutogara Útgerðarfélags Akureyringa, Harðbak EA 3, var afhjúpað við hátíðlega athöfn á Torfunefsbryggju á Akureyri laugardaginn 30. ágúst að viðstöddu fjölmenni.
Elvar Þór Antonsson á Dalvík smíðaði líkanið fyrir tilstilli hóps fyrrverandi sjómanna á togurum ÚA.
Harðbakur var þriðji togarinn sem ÚA eignaðist. Félagið keypti skipið frá Skotlandi árið 1950 en fyrir voru Kaldbakur EA 1 og Svalbakur EA 2.
Arngrímur Jóhannsson og Steingrímur Antonsson afhjúpuðu líkanið
Líkanið afhjúpuðu tveir fyrrverandi skipverjar á Harðbak, þeir Arngrímur Jóhannsson og Steingrímur Antonsson. Arngrímur og Steingrímur eru þeir einu sem enn eru á lífi úr þrjátíu manna áhöfn skipsins í sögulegum túr árið 1959 en þá gerði mikið vonskuveður og voru margir togarar í stórhættu. Einn togari Júlí GK fórst með allri áhöfn.

Mikilvægt að varðveita söguna
Sigfús Ólafur Helgason er í forsvari fyrrum sjómanna á togurum ÚA en hópurinn hefur nú staðið fyrir smíði nokkurra líkana af togurum ÚA. Í ávarpi sem Sigfús Ólafur flutti á laugardaginn minnti hann á mikilvægi þess að varðveita söguna, meðal annars með því að koma á fót sjóminjasafni á Akureyri.
Ánægjulegur dagur
Bræðurnir Kristján og Þorsteinn Vilhelmssynir rifjuðu upp æskuminningar en þeir fóru ungir að árum í veiðiferðir á Harðbak með föður sínum, Vilhelm Þorsteinssyni skipstjóra. Síðar varð Vilhelm annar framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Akureyringa.
„Þetta er mjög svo ánægjulegur dagur, Harðbakur er aftur við Torfunefið. Þetta voru einföld skip en góð. Harðbakur var gjarnan kallaður drekinn, vegna þess að hann var aðeins lengri en aðrir togarar félagsins. Líklega munaði sex fetum, þannig að það þurfi ekki mikið til. Hjartanlega til hamingju með þetta glæsilega líkan, sem er liður í því að varðveita söguna. Ef verið væri að gera kvikmynd um lífið um borð á þessum togurum er ég nokkuð viss um að ráða þyrfti áhættuleikara í sum hlutverkin,“ sagði Kristján Vilhelmsson.
