Í jólablaði Fiskifrétta er viðtal við Bretann Quentin Bates sem um langt árabil hefur verið blaðamaður sjávarútvegsblaðanna Fishing News og Fishing News International. Quentin bjó um tíu ára skeið á Ísafirði og Skagaströnd, þar sem hann stundaði m.a. sjómennsku og lærði til stýrimanns. Eitt sumar var hann á rækjubátnum Guðnýju ÍS og var kokkur í nokkrum túrum. Við grípum hér niður í frásögnina í jólablaði Fiskifrétta:
Í einni veiðiferðinni hafði Kaupfélagið klúðrað kostinum og var ekki annað matarkyns en pylsur og gaddfreðin kindasvið í kælinum. Þegar Quentin hafði boðið upp á pylsur í öll mál þrjá daga í röð gerðust menn leiðir. Skipaði Bjössi vélstjóri kokknum að endingu að elda sviðin.
"Eldaðu helvítis sviðin," skipaði Bjössi. Quentin, sem vissulega hafði séð svið áður, færði þau í pottinn og gerði sem vélstjórinn bauð. Þegar leið á suðuna gaus upp ógurlegur óþefur. Þegar að var gáð kom í ljós að sviðin höfðu verið soðin óhreinsuð með heila og öllu klabbinu sem flaut fremur ókræsilega í soðvatninu.
"Ég vissi ekki betur. En þeir átu þetta," segir Quentin og hlær að minningunni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)