Fyrirtækið Kemi ehf. kynnti í síðustu viku nýtt bætiefni fyrir eldsneyti, PD-5 frá Fuel Tec Ltd., sem dregur verulega úr útblástursmengun og jafnframt úr notkun eldsneytis. Prófanir sem gerðar hafa verið hér á landi staðfesta 6-13% eldsneytissparnað að sögn Kemi ehf. Efnið er nú komið í sölu á Íslandi.

Efnið hefur m.a. verið notað á Wickman-vél í línubátnum Ágústi GK sem Þorbjörn hf. í Grindavík gerir út og segir Andrés Guðmundsson, útgerðarstjóri, að það hafi gefið góða raun. ,,Olíusparnaður hjá okkur hefur verið 6% með PD-5 og sótvandamál eru úr sögunni. Miðað við ársnotkun er þetta sparnaður upp á 2-3 milljónir króna. Við vonum hins vegar að við sjáum enn stærri tölur í sparnaði í viðhaldi því bætiefnið hreinsar óhreinindi úr olíunni sem leiðir til tærari og betri bruna.“

Prófanir í leigubílum og á jarðvinnsluvélum hafa sýnt meiri sparnað eða 9-13%, segir í frétt frá Kemi ehf.