Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir að öll gögn í tengslum við athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja séu klár. „Við höfum ekkert að fela og það er allt upp á borðum,“ segir Guðmundur í frétt á vb.is.
Hann segir það hins vegar óásættanlegt að matvælaráðherra sé að greiða Samkeppniseftirlitinu, sem hafi rannsóknarheimildir, til að vinna fyrir sig á sama tíma og ráðherra geti stýrt rannsókninni.
„Þetta er bara prinsippmál,“ segir Guðmundur en Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að beita Brim dagsektum að fjárhæð 3,5 milljónum króna á dag fyrir að neita að afhenda gögnin.
Að mati Guðmundar hefði Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) átt að vera í þessa baráttu fremur en Brim.
„En SFS neitaði því það þorir enginn að anda á Samkeppniseftirlitið í samfélaginu.“
Guðmundur bar málið undir stjórn Brims fyrir nokkrum vikum og segir stjórnina tilbúna í slaginn. „Þau voru alveg hörð á því það yrði að vera prinsipp í okkar samfélagi. Þess vegna erum við að þessu. Við höfum ekkert að fela og það er allt upp á borðum.“