Pottar þeir sem sjávarútvegsráðherra mun ráðstafa verða mun stærri en aflaheimild allra núverandi útgerða á Norðurlandi samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytta stjórn fiskveiða, að því er fram kemur á heimasíðu Ramma hf.
,,Verði frumvarp sjávarútvegsráðherra að lögum – og komi það að fullu til framkvæmda – verða geðþóttapottar ráðherrans um 77 þúsund þorskígildistonn ef miðað við 20 ára meðalveiði helstu nytjastofna.
Aflaheimildir ráðherra verða því 20 þúsund þorskígildistonnum meiri en í öllum þessum byggðarlögum samtals: Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Hofsósi, Haganesvík, Siglufirði, Ólafsfirði, Grímsey, Hrísey, Dalvík, Árskógssandi, Hauganesi, Akureyri, Grenivík, Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn.
Ríkisútgerð sjávarútvegsráðherra mun því ráða yfir 20 þúsund þorskígildistonnum meira en allur útvegurinn á Norðurlandi,“ segir á heimasíðu Ramma hf.