Ískóð í Barentshafi, öðru nafni pólþorskur, er í mikilli niðursveiflu og hefur stofninn ekki verið í verra ástandi en nú síðastliðin 25 ár, að því er fram kemur á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.

Þar segir ennfremur að í nýlegum rannsóknaleiðangri hafi lítið fundist af ungviði og nýliðun í stofninum hafi auk þess verið mjög léleg í meira en áratug. Ekki hafi fundist sterkur árgangur síðan 2002.

Ískóðið er mikilvæg tegund fyrir lífríkið í Barentshafi og er fæða þorsks, grálúðu, sels og hvals.

Stofnstærð ískóðs hefur verið mjög breytileg í áranna rás, eða frá 86 þúsund tonnum árið 1986 upp í um það bil tvær milljónir tonna á árunum 2001 til 2006. Í leiðangrinum í ár mældist stofninn 148 þúsund tonn. Aukinn sjávarhiti í norðan- og austanverðu Barentshafi er skýringin á því hvað ískóðið hefur átt erfitt uppdráttar.