Grænlenska skipið Polar Amaroq tók eitt hol fyrir vinnsluna í skipinu í gærkvöldi úti af Langanesi og fengust þá 250 tonn, að því er Guðmundur Hallsson stýrimaður sagði í viðtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar í morgun. Hann sagði að verið væri að vinna þann afla um borð en skipið væri nú byrjað að sigla eftir leitarleggjunum. Sagði Guðmundur að það hefði verið „ágætt að sjá“ á blettinum sem skipið var á í gær og nú yrði spennandi að sjá hvað kæmi út úr leitinni.

Eins og fram kom í fréttum í gær fékk Polar Amaroq 350-400 tonn af loðnu norðnorðaustur af Langanesi og var hún fryst um borð í skipinu. Auk þess að veiða mun Polar Amaroq leita að loðnu og eru rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun um borð.

Á vef Norska síldarsamlagsins er haft eftir Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq að loðnan sem þeir fengu á miðvikudagskvöldið hefði staðið hátt í sjónum, á upp að 150 metra dýpi, og því vel algengileg með nót. Loðnan var óvenjustór eða sem svarar 33 stykkjum í kílóinu og hrognaþroskinn var 10-11%.

Í morgun mátti sjá fréttir í norskum miðlum um að norska skipið Fiskebas hefði fengið 165 tonn af loðnu við Ísland og væri á leiðinni til Fáskrúðsfjarðar með aflann.