Polar Amaroq hefur verið á kolmunnaveiðum við Færeyjar síðustu dagana og er þetta fyrsta veiðiferð skipsins eftir að það komst í eigu East Greenland Codfish AS. Á vefsíðu Síldarvinnslunnar lýsir Geir Zoëga skipstjóri yfir mikilli ánægju með skipið.
„Túrinn gekk afar vel í alla staði. Við fengum meðal annars leiðinlegt veður og þá fundum við hvað hér er um gott skip að ræða. Veiðarnar gengu eins og best verður á kosið og má segja að eftir fyrsta hol hafi menn verið búnir að átta sig á öllum tækjum og búnaði um borð.
Við erum nú á landleið til Skagen í Danmörku með um 2.000 tonn eða fullfermi. Aflann fengum við í 6 holum og var eitt þeirra 600 tonn. Þetta stóra hol tókum við í haugabrælu og þá reyndi á skip og allan búnað. Í sannleika sagt er áhöfnin alsæl með skipið.
Við erum nú að sigla innan um borpalla í Norðursjónum og verðum í Skagen annað kvöld. Það er siglt á 10 hnútum á annarri vél skipsins og það er vart hægt að hugsa sér betur heppnaða fyrstu veiðiferð,“ segir Geir.