Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq, sem er að þriðjungi í eigu Síldarvinnslunnar, var sem kunnugt er notað sem rannsóknaskip í loðnumælingunum á dögunum. Þorsteinn Sigurðsson fiskifræðingur og sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun segir að samstarfið við skipstjóra og áhöfn Polar Amaroq hafi verið hreint frábært.
Skipið lækkað í sjónum
„Þeir Polarmenn sýndu verkefninu mikinn áhuga og allt samstarf við þá gekk eins og best verður á kosið. Skipið er vel búið tækjum til leitar, en er hins vegar ekki með fellikjöl eins og æskilegt er. Í stað fellikjalarins greip Geir Zoёga skipstjóri til þess ráðs að dæla einum 1200 tonnum af sjó í skipið til að lækka það í sjónum og kom það sér vel. Útgerðir loðnuskipanna eiga heiður skilinn fyrir að kosta síðari leitina, sem hefði sennilega aldrei verið farin ef þær hefðu ekki tekið ákvörðun um að greiða þær 25 milljónir sem þurfti. Síðari leitin leiddi til þess að nú fáum við loðnuvertíð sem skapar sennilega 16 milljarða í verðmæti í staðinn fyrir 1 milljarð eða tæplega það,“ segir Þorsteinn Sigurðsson á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Sögulegar mælingar
Eins og flestum er kunnugt ríkti svartsýni hvað varðaði loðnuveiðar í janúar sl. Þá var gefinn út heildarkvóti upp á 57 þúsund tonn. Mælingin sem úthlutun kvótans byggði á var þó álitin óviss þar sem slæmt veður og hafís höfðu truflað loðnuleitina verulega. Ráðist var í nýja mælingu sem fram fór dagana 3. – 11. febrúar og var hún kostuð af útgerðum loðnuskipa. Skilaði hún miklu jákvæðari niðurstöðu og í kjölfar hennar var gefinn út heildarkvóti upp á 299 þúsund tonn. Þessar mælingar eru sögulegar að því leyti að veiðiskip var notað til þeirra með rannsóknamönnum frá Hafrannsóknastofnun um borð. Árið 2008 voru gögn frá veiðiskipum að vísu notuð til að meta loðnustofninn, en skipin tóku þá ekki þátt í skipulegri leit ásamt skipum Hafrannsóknastofnunar eins og grænlenska skipið Polar Amaroq gerði í báðum leitunum á þessu ári.