Ráðgjafarfyrirtækið Pescatech sérhæfir sig í verkefnum tengdum sjávarútvegi og fiskeldi á alþjóðavettvangi. Hér á landi hefur fyrirtækið verið í sókn undanfarin ár í tengslum við fiskeldi. Ráðgjöf þess hefur greitt íslenskum tæknifyrirtækjum leið inn í uppbyggingu á fiskeldi á Íslandi.

Chris Bjerregard, stofnandi Pescatech, telur spennandi tíma fram undan á Íslandi. Undanfarið hefur fyrirtækið komið að nokkrum stórum verkefnum hér á landi við hönnun og uppbyggingu sláturhúsa t.a.m. hjá Arctic Fish og Búlandstindi auk þess að veita First Water ráðgjöf við hönnun og gerð útboðsgagna fyrir sláturhús sem fyrirhugað er í Þorlákshöfn.

Að auki hefur íslenskur búnaður komið mikið við sögu í síðustu verkefnum sem Pescatech hefur komið að. Fleiri verkefni eru í farvatninu. Nýverið gekk Gunnar Egill Sævarsson til liðs við Pescatech. Fyrirtækið er því komið með þrjá starfsmenn staðsetta á Ís landi, en fyrir voru þeir Arnbjörn Eyþórsson vélaverkfræðingur og Jón Hlífar Aðalsteinsson sjávarútvegsfræðingur. Gunnar hefur unnið í íslenskum sjávarútvegi til margra ára, sem tæknistjóri hjá Skinney-Þinganesi, atvinnukafari og sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi.

Gunnar Egill Sævarsson.
Gunnar Egill Sævarsson.

Óháð alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki

„Höfuðstöðvar félagsins eru í Danmörku en hjá Pescatech starfar fjölbreyttur hópur reyndra sérfræðinga með ára langa reynslu af ýmsum sviðum sjávarútvegs á alþjóðavettvangi en þetta teymi myndar liðsheild sem getur tekist á við stór og flókin verkefni um allan heim,“ segir Chris Bjerregaard.

Sérstaða fyrirtækisins felst í þekkingu á öllum þáttum fiskvinnslu. Algengt er að Pescatech leiði þarfagreiningar og markmiðasetningu fyrir viðskiptavini, hanni yfirlitsteikningar, vinni kostnaðarmat og áætlanir, áætli orku- og vatnsnotkun og vinni útboðsgögn, að sögn Chris.

Aðspurður segir Gunnar að aðferðafræði Pescatech henti íslenskum fyrirtækjum í sjávarútvegi og fiskeldi vel.,,Þetta snýst um að velja búnað sem hentar markmiðum hvers viðskiptavinar, en ekki að aðlaga markmiðin að getu búnaðar ins eins og oft vill verða,“ segir Gunnar.

„Ráðgjöfin nær til allrar vinnslu og allra stoðkerfa með heildarmyndina í huga. Þegar stendur til að byggja, breyta eða þróa t.a.m. verksmiðjur er dýrmætt að hafa aðila þér við hlið sem starfar eingöngu með þína hagsmuni að leiðarljósi. Markmið fyrirtækisins er ávallt að tryggja viðskiptavinum bestu mögulegu lausnina út frá þeirra forsendum. Þessi þjónusta hefur skilað viðskiptavinum Pescatech verulegum ávinningi.“