Stjórnvöld í Perú eru bjartsýn á að verð á fiskimjöli muni haldast áfram í sögulegu hámarki en verðið fór í 1.700 dollara á tonnið á árinu 2009. Aðstæður séu hagstæðar á mörkuðum og gæði mjölsins batni stöðugt.
Aðstoðarsjávarútvegsráðherra Perú segir í viðtali við fis.com að ansjósan sem veidd er við landið sé ákjósanlegt hráefni til vinnslunnar og að mikið átak hafi verið gert til að auka hlutfall gæðamjöls í framleiðslunni.
Hann getur þess einnig að veðurfyrirbærið El Niño, sem hamlar veiðum, og aukin eftirspurn eftir fiskimjöli frá Kína muni jafnframt stuðla að því að verð á fiskimjöli haldist hátt eins og fram hefur komið í Fiskifréttum.
Í enduðum janúar lýkur öðru veiðitímabili á ansjósu í Perú en það hófst í nóvember. Heildarkvótinn er um 2 milljónir tonna á tímabilinu en allt stefnir í það að ekki náist að veiða allan kvótann. Gert er ráð fyrir því að 22 þúsund tonn verði óveidd.
Aðstoðarráðherrann segir að sjórinn hafi hlýnað og því hafi ansjósan fært sig sunnar á bóginn í kaldari sjó og erfiðara sé að ná henni.