Leiðandi sjávarútvegsfyrirtæki í Perú stefna að verulegri fjárfestingu á næstu árum í endurnýjun á fiskiskipum og vinnslustöðvum og til að nútímavæða fiskiðnaðinn í landinu, að því er fram kemur á fréttavefnum fis.com.

Fyrirtækin munu verja allt að 250 milljónum dollara (32 milljarðar ISK) á næstu fimm árum til að endurnýja fiskiskipaflotann og fiskvinnslustöðvar að sögn Jose Nicanor Gonzales Quijano, iðnaðar- og sjávarútvegsráðherra Perú.

Ráðherrann átti nýlega fund með forstjórum stærstu sjávarútvegsfyrirtækja í Perú og þar kom fram að þeir væru í þann mund að klára samninga um endurnýjun flotans. Hér væri ekki eingöngu um að ræða smíði á hefðbundnum 350-500 tonna skipum heldur einnig kaup á skipum sem væru um 800 tonn eða stærri.

Hvert fyrirtæki hyggst verja milli 10 og 12 milljónum dollara (1,3-1,5 milljarðar ISK) til kaupa á skipum sem hafa 800-1.000 tonna burðargetu og eiga að leysa minni skip af hólmi.

Auk þess standa vonir manna til að unnt verði að hefja veiðar á nýjum fisktegundum djúpt úti af ströndum Perú. Talið er að þessar nýju tegundir kunni að hafa fylgt í kjölfarið á veðurfyrirbærinu El Niño og hlýnun sjávar.

Ráðherrann gat þess ennfremur að í janúar síðastliðnum hefði verið farið í rannsóknarleiðangur til að leita að nýjum fisktegundum innan lögsögunnar á svæði sem liggur 100 til 150 mílur frá landi. Leiðangrinum hefði lokið 31. mars og innan skamms yrðu niðurstöður kynntar.

Ráðherrann benti á að verðhækkanir á fiskmjöli - en gæðamjöl hefur hækkað úr 900 dollurum á tonnið í 1.800 dollara - væri ein af ástæðum þess að fyrirtækin réðust í þessar fjárfestingar.