Á vef HB Granda er greint frá því að ísfisktogarinn Viðey RE hafi komið til Reykjavíkur í gærmorgun úr hefðbundinni veiðiferð.
Þar segir ennfremur að vegna svokallaðs páskastopps, þegar stórum svæðum, aðallega við sunnan- og vestanvert landið, er lokað vegna hrygningar þorsksins, hafi reynst reynst snúið að veiða þorsk á togaraslóð.
Við því hafi þó verið brugðist að þessu sinni með því að ljúka veiðiferðinni á Vestfjarðamiðum. Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey, segir að þar hafi verið blíðuveður.
„Við byrjuðum á að veiða gullkarfa og ufsa á Fjöllunum. Það var vitlaust veður á suðvesturmiðum og það spáði verra veðri og því fórum við beint norður á Vestfjarðamið,“ er haft eftir Jóhannesi Ellert.
„Við fengum þorsk í kantinum vestur af Halanum og á Strandagrunni. Aflabrögðin voru í lagi en það verður enginn kraftur í veiðinni fyrr en í júní eftir að þorskurinn er genginn út af grunnunum. Hið sama á við um miðin fyrir sunnan. Þorskurinn er allur uppi á grunnunum á stóru svæði sem nú er lokað. Það verður opnað fyrir veiðum nk. sunnudag og það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þá,“ sagði Jóhannes Ellert Eiríksson.