Erlendur Bogason hefur stundað köfun hér við land undanfarin 27 ár og tekið ógrynnin öll af ljósmyndum og myndskeiðum sem birta okkur nýja sýn á lífríkið í undirdjúpunum.

Myndirnar hefur hann sýnt víða um land og myndböndin hafa mörg hver birst á Youtube. Erlendur segir fjölbreytni lífríkisins í hafinu heillandi og hún er meiri en við ímyndum okkur.

„Ég átti orðið allar þessar myndir og langaði að gera eitthvað við þær, koma þeim á framfæri,“ segir Erlendur „Sem áhugamaður um sjóinn og lífríki sjávar fannst mér líka slæmt að við skulum ekki eiga neinn vef. Það er erfitt að finna myndir og upplýsingar um lífríki sjávar.“

Erlendur Bogason. MYND/Aðsend
Erlendur Bogason. MYND/Aðsend

Erlendur Bogason.

Vefurinn sjavarlif.is hefur nú verið opnaður og er þar hægt að nálgast bæði myndir og myndskeið sem Erlendur hefur tekið neðansjávar við strendur landsins. Með fylgja textar með fróðleik um hverja tegund. Erlendur neitar því ekki að þetta hefur verið töluverð vinna.

„Þetta hefst ekkert nema með hjálp góðra manna,“ segir Erlendur, og nefnir til sögunnar þau Dagnýju Reykjalín og Hreiðar Þór Valtýsson, samstarfsfólk sitt við vefinn. Dagný hefur sett upp vefinn og setur myndirnar inn, en Hreiðar Þór sér um textann.

„Ég geri náttúrlega léttasta hlutinn. Slæpist bara um og hoppa í sjóinn að taka myndir. Það er miklu skemmtilegra en hitt.“

Byrjaði með Strýtunum

Hann hefur stundað köfun frá því upp úr 1990 og byrjaði fyrir meira en tuttugu árum að taka ljósmyndir neðansjávar.

Upphafið að myndatökunum má rekja til þess þegar hann fann Strýturnar í Eyjafirði árið 1997.

„Við vorum beðin um að mynda strýturnar þegar við fundum þær. Ég kafaði þangað fyrst 1997 og upp úr því byrja þessar myndatökur. Svo fer maður líka að taka myndir í sambandi við þjónustu við skip.“

Smám saman fór lífríkið neðansjávar að vekja æ meiri athygli Erlends. Myndefnið sem hann hefur safnað verður að telja einstakt. Þar eru bæði ljósmyndir og myndbönd sem hann hefur tekið neðansjávar við Íslandsstrendur.

„Markmiðið er náttúrlega að ná myndum af öllum dýrum í sjónum kringum Ísland. Það er stefnan, en það á eftir að taka tíma og það verður líka alltaf erfiðara og erfiðara. Maður er búinn með allt það léttasta, þannig að nú fer að verða erfiðara að safna tegundum.“

Skarkoli er meðalstór flatfiskur. Hann er með rauða eða appelsínugula bletti á annars dökku bakinu. Vegna þessara bletta er hann líka oft nefndur rauðspretta. Allar myndir/Erlendur Bogason

Íslandskort með prjónum

Hann segist eiga Íslandskort sem hann hefur merkt inn á með prjónum alla staði sem hann hefur kafað ár. Prjónarnir eru orðnir býsna margir.

„Það eru ekkert margir staðir sem ég á eftir. Ég hef verið mjög heppinn að taka þátt í rannsóknarleiðöngrum og alls konar verkefnum þar sem ég hef verið að mynda.“

Vefurinn er meðal annars ætlaður til að nýtast við rannsóknir og fræðslu fyrir sjávarútveg og almenning.

Steinbítur er langur og hausstór fiskur með stórar og sterkar tennur. Algengt er að hann sé 60 til 110 sentímetra langur og verður allt að 15 kíló að þyngd.

Erlendur hefur oftsinnis verið beðinn um að fara í skóla að sýna myndir og flytja erindi. Þá hefur hann rekið sig á að fræðsluefni vantar tilfinnanlega.

„Kennararnir kvarta alltaf undan því að það vanti efni. Það vantar ekki áhugann heldur vantar efni til að geta sýnt og unnið með.“

Á vefnum sjavarlif.is er að finna ekki aðeins myndir af helstu fisktegundum við landið heldur einnig hryggleysingja á borð við krabba og marflær, marglyttur og kræklinga.

Einnig er þarna að finna myndir af nokkrum helstu þörungategundunum, en þær eru bæði margar og fjölbreyttar. Um brúnslý segir til dæmis að það finnist svo að segja um öll höf en þó ekki í hitabeltinu. Allt erfðaefni brúnslýs hefur verið kortlagt, og er það vegna þess hve þolið það er og auðvelt í ræktun.

Verkefnið hefur notið stuðnings frá Rannsóknarsjóði síldarútvegsins, Fiskifélagi Íslands og Háskólanum á Akureyri.

Þótt efnið sé komið á netið er vefurinn enn í vinnslu og á eftir að vaxa og eflast með tímanum.