Eldisfiskurinn pangasíus, sem einkum er framleiddur í Víetnam og keppt hefur við villtan hvítfisk eins og þorsk og ufsa á Evrópumarkaði, er nú á undanhaldi í Evrópu.

Innflutningur á pangasíus til Evrópu jókst á tiltölulega fáum árum úr engu upp í 200.000 tonn árið 2010. Síðan þá hefur innflutningurinn hrapað niður í 130.000 tonn eða um 40%, að því er fram kom á ráðstefnu í Björgvin í Noregi og sagt er frá í Fiskeribladet/Fiskaren.

Innflutningsverð á pangasíus lækkaði á árunum eftir 2000 úr 366 íslenskum krónum kílóið niður í 255 krónur. Verðlækkunin tengdist með beinum hætti aukinni framleiðslu.

Sú hætta, sem sumir töldu á því að þessi ódýri hvítfiskur frá Asíu myndi smám saman ryðja burt dýrari villtum fiski á Evrópumarkaði, virðist hafa verið stórlega ofmetin.