Framleiðendur á eldisfiskinum pangasíus í Víetnam eru í miklum erfiðleikum og fjöldagjaldþrot yfirvofandi í greininni. Ástæðan er annars vegar mikill samdráttur í eftirspurn eftir pangasíus bæði á Evrópumarkaði og Ameríkumarkaði og hins vegar hækkun vaxta og strangari lánaskilyrði í Víetnam sem gera bæði framleiðendum og seljendum erfiðara fyrir.
Vafi þykir leika á að fyrirhugaðar björgunaraðgerðir upp á 440 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 56 milljarða íslenskra króna, muni nægja til þess að leysa vandann. Ástæðan er sögð sú að fjárhagsaðstoðin muni ekki nýtast eldisbændunum heldur aðeins fyrirtækjunum sem kaupa fiskinn af þeim.
Nú er staðan sú að fyrirtæki hafa ekki keypt fisk af bændunum vegna fjárskorts en bændurnir verða hins vegar að halda áfram að eyða peningum til þess að fóðra fiskinn daglega svo hann drepist ekki. Þar á ofan bætist að meðan fiskurinn selst ekki heldur hann áfram að vaxa í tjörnunum en stærri fiskurinn er lakari söluvara en sá smærri og selst því fyrir lægra verð.
Sjávarútvegsvefurinn fis.com greinir frá þessu.