Gríðarlegir þurrkar í Suður-Víetnam hafa gert það að verkum að 30% eldisfisksins pangasíus í tjörnum við árbakka Mekong-fljótsins hafa drepist. Þurrkarnir eru hinir verstu í Víetnam í 90 ár og hafa þeir eyðilagt 4.500 hektara fiskeldissvæða auk þess sem 260.000 hektarar hrísgrjónaakra og 160.000 hektarar ávaxtaekra eru ónothæfir.
Frá Mekong-svæðinu koma við eðlilegar aðstæður 60% af eldisfiski og eldisrækju í landinu og helmingur hrísgrjónauppskerunnar. Eins og kunnugt er hefur pangasíus frá Víetnam átt töluverðum vinsældum að fagna í Evrópu og Bandaríkjunum og veitt villtum hvítfiski töluverða samkeppni enda ódýrari. Fyrir nokkrum árum framleiddu Víetnamar eina og hálfa milljón tonna af þessum fiski en árið 2014 hafði framleiðslan minnkað í um eina milljón tonna. Verð á pangasíus hefur fallið í Evrópu í seinni tíð og hefur það gert framleiðendum í Víetnam erfitt fyrir og nú bætast þurrkarnir við þessa erfiðleika sem gerir það að verkum að fjölmargir verða að hætta starfsemi.
Innflytjendur í Evrópu borga nú innan við 3 dollara (375 ISK) fyrir hvert kíló af vottuðum, roðlausum og beinlausum innpökkuðum flökum af pangasíus komnum til Evrópu, að því er fram kemur á vefnum Seafoodsource.com.