Skuttogarinn Páll Pálsson ÍS hefur skilað um 40 milljörðum í aflaverðmæti á núvirði frá því skipið lagðist að bryggju í Hnífsdal í fyrsta skipti 21. febrúar fyrir 40 árum síðan. Þetta kemur fram á vef Hraðfrystihússins-Gunnvarar.

Í tilefni afmælisins hittust sjómenn og makar þeirra, þjónustuaðilar á Ísafirði ásamt stjórnendum Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Edinborgarhúsinu og samglöddust yfir áfanganum.

Sverrir Pétursson útgerðarstjóri ræddi um för Páls Pálssonar til Hnífsdals frá Japan árið 1973 ásamt því að fara yfir aflatölur og aflaverðmæti skipsins frá upphafi. Aflinn á þessum 40 árum er um 163 þúsund tonn, þar af um 100 þúsund tonn af þorski. Verðmætin eru um 40 miljarðar króna miðað við meðalverð hjá Páli 2012.