Loðnuvertíðin í Barentshafi er að fjara út og eru Norðmenn farnir að örvænta um að loðnukvóti þeirra í Barentshafi á yfirstandandi vertíð náist allur. Lítið hefur gengið að veiða síðustu daga og í gær voru 19.000 tonn enn óveidd af 221.000 tonna heildarkvóta eða tæp 9%.

Rússneskum loðnuskipum hefur einnig gengið erfiðlega að ná kvótum sínum. Um miðjan þennan mánuð var enn eftir um þriðjungur af 99.000 tonna loðnukvóta Rússa að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Norskum togskipum sem fengu úthlutað loðnukvóta hefur gengið sérlega illa á vertíðinni sem leiddi til þess að fyrr í vikunni voru veiðar á eftirstöðvum norska kvótans  gefnar frjálsar.