Ráðherra sjávarútvegsmála á Spáni, Miguel Arias Canete, hefur lýst áhyggjum sínum af því að hvorki gangi né reki í samningaviðræðum Evrópusambandsins og Máritaníu um endurnýjun fiskveiðisamnings milli ríkjanna.

Síðasti viðræðufundur var haldinn í desember síðastliðinn og núverandi samningur rennur út í lok júlí næstkomandi. Ráðherrann segir að spænskar útgerðir eigi mikið undir því að unnt verði að endurnýja samninginn sem allra fyrst.

Evrópusambandið hefur greitt 70-86 milljónir evra á ári fyrir veiðileyfi í lögsögu Máritaníu síðustu fjögur árin. Það jafngildir 11-14 milljörðum íslenskra króna á ári.