Vorallið stendur sem hæst. Bjartur NK, sem er eitt fjögurra skipa í rallinu, hóf veiðar hinn 25. febrúar sl.  Bjarti er ætlað að toga á 183 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Eyjafirði að Gerpistotu og síðan einnig á Þórsbanka. Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra á Bjarti í gær og spurðist fyrir um hvernig gengi.

„Það er rífandi gangur í þessu hjá okkur og við erum nú að kasta í togstöð númer 72 af þessum 183. Við lönduðum 45 tonnum í gær á Dalvík en veiðin hefur verið óvenju mikil hingað til miðað við fyrri röll. Það er búið að vera blíðuveður allan tímann og það á sinn þátt í því hve vel gengur. Við reiknum með að landa á ný nk. sunnudag en þá áformum við að vera búnir að toga á 25 stöðvum til viðbótar og þá verðum við hálfnaðir. Það ætti að geta gengið því við höfum verið að ná allt upp í 12 stöðvum á dag. Það er alltaf ánægjulegt þegar aflast vel í röllunum og við sjáum að það er loðna í fiski út af Skjálfanda, við Kolbeinsey og á Sléttugrunni. Þá höfum við orðið varir við loðnupeðrur allvíða,“ sagði Steinþór.

Fylgjast má með ferðum skipanna í rallinu í rauntíma á vef Hafró, HÉR.