Grásleppuveiðileyfi hvers báts hefur verið lengt úr 25 samfelldum dögum í 35 daga, samkvæmt reglugerð sem birt var 11. apríl. Þeir sem virkjuðu leyfi sín strax 20. mars mega því halda áfram veiðum til 23. apríl, en hefðu ella þurft að stöðva veiðar 13. apríl.

Enn fremur hefur frumvarp um veiðistjórn grásleppu verið birt á vef alþingis, og þar er lagt til að viðmiðunartímabil við úthlutun kvóta miðuð við þrjú best bestu veiðitímabil hvers skips á árunum 2014 til 2022. Þetta er breyting frá fyrri hugmyndum, sem gengu út á að miðað yrði við árin 2014 til 2019.

Megintilgangur frumvarpsins er sagður vera að auka fyrirsjáanleika við veiðarnar og tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar. Landssamband smábátaeigenda hefur jafnan verið andvígt kvótasetningu grásleppu, en þeir smábátasjómenn sem stunda grásleppuveiðar aftur á móti flestir fylgjandi.

Skekkir hlutfallið

Axel Helgason, grásleppusjómaður og fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda, segir ósanngjarnt að árið 2020 verði í viðmiðunartímabilinu vegna þess að það ár voru veiðar stöðvaðar þegar skammt var liðið á vertíðina.

„Það er í rauninni ákveðinn ómöguleiki í því. Það er alveg klárt að það verða lögsóknir og tómt vesen út af því ef það fær að standa,“ segir hann. „Fjöldi báta var takmarkaður við þá sem höfðu hafið veiðar, auk þess sem fjöldi báta fékk nokkra daga til að draga upp net sem höfðu verið í sjó einungis í nokkra daga, eða nýbúnir að virkja leyfi en engin net komin í sjó. Það leiðir til þess að hlutdeild þeirra fáu sem þá höfðu tækifæri á að veiða mun skekkja hlutfallið í hlutdeildarútreikningum.“

Ekki þykir ráðlegt að veiða meira en 4.411 tonn á þessari vertíð, sem er heldur minna en veiddist í fyrra og þriðjungi minna en ráðgjöf síðasta árs. Til þessa er búið að veiða um 470 tonn á vertíðinni, en á annað hundrað bátar hafa virkjað veiðileyfi sín.