Minna hefur ekki sést af Barentshafsþorski við Lofoten síðan árið 2001. Norska hafrannsóknarstofnunin, Havforskningsinstituttet, hefur birt niðurstöður úr rannsóknarleiðangri sínum frá í mars og apríl, en þetta er árlegur leiðangur sem notaður er til að meta stærð hrygningarstofns Barentshafsþorsks.
Barentshafsþorskurinn heldur árlega á hrygningarslóðir við Lofoton snemma vors og er þá veiddur þar í stórum stíl. Þorskinn sem þar veiðist nefna Norðmenn skrei og afurðirnar eru með þeim verðmætustu sem norskur sjávarútvegur hefur upp á að bjóða.
„Við höfum ekki séð svona lítið af skrei síðan 2001,“ segir Edvin Fuglebakk leiðangursstjóri um niðurstöður leiðangursins. „Við fundum mest af honum utan við Lofoten en lítið á hefðbundum veiðislóðum inni í Vesturfirði.“
Mælingar af þessu tagi hafa verið gerðar síðan 1985. Undanfarin tvö ár hefur stofninn verið á niðurleið og nær nýjum lágpunkti í ár.
Mest undruðu leiðangursmenn sig reyndar á því að þorskarnir voru með magafylli af fæðu.
„Venjulega eru þeir með tóman maga,“ segir Fuglebekk. „Samkvæmt fræðunum á fiskurinn að vera hættur að éta og byrjaður að hrygna á þessum árstíma.“