Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, rekur gang loðnuvertíðarinnar á vef HB Granda og segir að það sé aldrei hægt að ganga að neinu gefnu þegar loðnuveiðin sé annars vegar. Hins vegar hafi vertíðin nú verið óvenjuerfið, kvótinn lítill og slæmt tíðarfar hafi ekki bætt úr skák.

,,Það, sem kom manni e.t.v. mest á óvart, var hve loðnan gekk dreift með landinu, hve mikill hraði var á göngunni eftir að hún kom að SA-landi og hve veiðin varð endaslepp í vertíðarlok. Við hófum veiðarnar fyrir Norðurlandi í janúar og mun vestar en við höfum átt að venjast. Trollhólfið var stækkað til vesturs og við hófum veiðar austan við Kolbeinseyjarhrygginn. Hluti af loðnunni gekk inn í trollhólfið en það er greinilegt að eitthvað af göngunni fór mun grynnra suður af hólfinu og dreift með landinu. Fyrir austan Vopnafjörð hvarf svo gangan og það var engin veiði úti af Austfjörðum. Það var ekki fyrr en fyrir vestan Ingólfshöfða að loðnan kom svo aftur í leitirnar auk þess sem einhver skip fengu í framhaldi af því veiði á Hrollaugseyjasvæðinu,“ segir Albert en að hans sögn gekk loðnan svo ótrúlega hratt vestur með ströndinni.

Veiðin ekki svipur hjá sjón

,,Það hafa verið ríkjandi austlægar áttir og manni dettur helst í hug að fallastraumurinn með ströndinni hafi verið svona stífur. Það tók loðnuna örskamman tíma að ganga vestur fyrir Reykjanes og inn í Faxaflóa. Við fórum í fyrsta hrognatúrinn okkar að svæðinu út af Malarrifi suður af Snæfellsjökli og þá lóðaði alls staðar á loðnu á stóru svæði.

Næst þegar við komum út var loðnan horfin norður fyrir Öndverðarnes þar sem hún var fljót að dreifa sér. Vertíðarlokin voru hjá okkur út af Ísafjarðardjúpi og svo í Nesdjúpinu. Þar voru ágætar lóðningar og þokkalegar torfur en svo var kvótinn búinn. Mér skilst af skipstjórum þeirra skipa, sem héldu veiðum áfram, að veiðin við sunnanvert Snæfellsnes hafi ekki verið svipur hjá sjón ef miðað er við undanfarin ár. Þótt loðnan sé búin að hrygna þá hafa skipin jafnan getað fengið hæng á þeim slóðum í einhvern tíma að aflokinni hrygningu. Það brást í ár,“ segir Albert Sveinsson.