Vísindamennirnir tóku saman gögn úr 11 rannsóknum og segja niðurstöðurnar staðfesta það, sem lengi hefur verið talið mögulegt, að þessi hringrás hefur verið að veikjast allt frá miðri 19. öld eftir að hafa verið nokkuð stöðug allt frá árinu 400 eða þar um bil.
Halldór Björnsson, loftslagsfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að grein Caesars og félaga sé allrar athygli verð og gögnin séu ótvíræð.
„Á sama tíma hefur hinsvegar hlýnað á Íslandi, svo þessi samdráttur er þá ekki nægur til að valda kólnun hér.“
Hann segir mikilvægt að hafa í huga að þetta er ekki Golfstraumurinn eða Norður-Atlantshafsstraumurinn sem verið er að mæla „heldur sá hluti hafstrauma í N-Atlantshafi sem tengist lóðréttri hringrás hafsins. Sveiflur í honum þurfa ekki að hafa bein áhrif á sveiflur í flæði N-Atlantshafsstraumsins, þó erfitt sé að hugsa sér að N-Atlantshafsstraumurinn væri óbreyttur ef þessi djúpsjávarstraumur stöðvaðist.
Halldór segir vitað að mikil bráðnun geti truflað djúpsjávarmyndunina. Slíkt gerðist á síðasta jökulskeiði og hugsanlega einnig fyrir um 8200 árum.
„Margvíslegar vangaveltur hafa verið um stöðuleika þessa kerfis og hversu langan tíma það taki að jafna sig af truflunum.“
Flestir líkanareikningar bendi til þess að þetta hafi þó nokkur áhrif á veðurfar á okkar svæði.